Hrossaræktarsamtök Eyfirðinga og Þingeyinga

 

 

Skýrsla stjórnar fyrir aðalfund á Breiðumýri 23. mars 2006

 


Stjórn

Þær breytingar urðu á stjórn á seinasta aðalfundi að Jónas Vigfússon gaf ekki kost á sér til endurkjörs í hans stað var kosinn Vilberg Jónsson. Zophonías Jónmundsson var endurkjörinn í stjórn. Eftir aðalfund var því stjórnin þannig skipuð: Baldvin Kr. Baldvinsson formaður, Þorsteinn Hólm Stefánsson varaformaður, Vilberg Jónsson ritari, Zophonías Jónmundsson gjaldkeri, Vignir Sigurðsson meðstjórnandi.

Varamenn í stjórn: Vignir Sigurólason og Þorvar Þorsteinsson.

Þorsteinn Hólm sagði sig úr stjórn í desember sl. og Vignir Sigurólason tók sæti hans. Stórn vill koma á framfæri þakklæti til Þorsteins og Jónasar fyrir vel unnin störf.

Vignir Sigurðsson hefur svo annast framkvæmdastjórn fyrir HEÞ skv. samningi við Búgarð. Haldnir voru 11 stjórnarfundir á árinu 2005.

  

Stóðhestahald

Gustur frá Hóli var á Sæðingstöðinni Gunnarsholti sl. vor. Gekk það frekar illa og fyl staðfest í aðeins 2 hryssum. Ákveðið var að bjóða upp á sæðingu við Gusti hjá Dýraspítalanum Lögmannshlíð en þar sem sæðið reyndist ekki nógu gott var þeirri þjónustu sjálfhætt eftir nokkrar tilraunir. Gustur var svo fyrra gangmál (frá 1. júlí – 2. ágúst) í Svarfaðardal og fengu 9 hryssur af 25. Á seinna gangmáli í Borgarfirði fengu 21 hryssa af 30.

Gengið var frá sölu á hlut Samtakanna í stóðhestinum Andvara frá Ey. Félagsmönnum var boðin hluturinn til kaups og 15 félagar gengu að því. Söluverðið var 2 milljónir að vsk. meðtöldum. Hrossaræktarsamtök Suðurlands seldu einnig sinn hlut (2/3) til einstaklings. Andvari var í húsnotkun í Svarfaðardal og var fyl staðfest í 9 af 15 hryssum sem undir hann voru leiddar.

Hrymur frá Hofi var fyrra gangmál í Rauðskriðu. Af 25 hryssum í hólfinu reyndust 17 fylfullar.  Honum var komið í þjálfun til Sigurðar Sigurðssonar í Þjóðólfshaga uppúr áramótum en er jafnframt undir eftirliti dýralæknis vegna fótameins.

Gengið var frá kaupum á liðlega þriðjungshlut (33,35%) í Gígjari ehf. en það er hlutafélag sem stofnað var á síðasta ári um stóðhestinn Gígjar (IS2000187051) frá Auðsholtshjáleigu og var það áður alfarið í eigu Þórdísar Gunnarsdóttur. Kaupverð hlutarins er kr. 7.063.937.- Á hluthafafundi félagsins 26. október sl. var kjörin ný stjórn í félaginu. Hana skipa Þórdís Gunnarsdóttir, Kristbjörg Eyvindsdóttir og Vignir Sigurðsson. Til vara voru kosnir Gunnar Arnarson og Þorsteinn Hólm Stefánsson. Stefnt er á að sýna Gígjar á LM 2006.

Mikil ásókn hefur verið í stóðhesta Samtakanna og færri komist að en vilja.

 


 

Sýningarhald 

Búgarður og Hrossaræktarsamtök Eyfirðinga og Þingeyinga stóðu að venju fyrir héraðssýningu kynbótahrossa og fór hún fram dagana 8.-10. júní sl. Sýningin var haldin í Hringsholti, félagssvæði hestamannafélagsins Hrings í Dalvíkurbyggð. Til dóms mættu 64 hross þar af 9 stóðhestar. Dómarar voru þeir Guðlaugur Antonsson og Sigurður Oddur Ragnarsson. Ágæt útkoma var á sýningunni en 32% fulldæmdra hrossa fór yfir 8,0 í aðaleinkunn. Á Fákaflugi, stórmóti hestamanna sem haldið var 11.-12. júní sl. á Melgerðismelum áttu eigendur hátt dæmdra kynbótahrossa sem eru búsettir á Norðurlandi, frá Vestur-Húnavatnssýslu og austur í Norður-Þingeyjarsýslu, rétt á því að hross þeirra tæku þátt í Úrvalssýningu kynbótahrossa sem þar fór fram.  

 

 

Á meðfylgjandi mynd eru ungar og efnilegar hryssur sem mættu á Fákaflug. Frá hægri talið Sóldögg (5v.) frá Akureyri kn. Höskuldur Jónsson, Sigurrós (5v.) frá Kommu kn. Birgir Árnason, Evíta (5v.) frá Litla-Garði kn. Stefán Birgir Stefánsson, Drottning (5v) frá Skarði kn. Þorvar Þorsteinsson.

Folaldasýning HEÞ var haldin í Hestamiðstöðinn í Saltvík 25. febrúar sl.  og  fór hún vel fram. Hrossaræktarfélag S-Þingeyinga stóð að þessari sýningu. Úrslit voru eftirfarandi.


Hryssur:
1. sæti Ruslana frá Grund F: Hryllingur frá Vallanesi M: Ör frá Akureyri
Eigandi Sævar Pálsson
2. sæti Nóta frá Dalvík F: Kormákur frá Flugumýri M: Spenna frá Dæli
Eig: Stefán Svanur og Guðrún
3. sæti Þyrnirós frá Heiðargarði F: Hryllingur frá Vallanesi M:Brúða frá Heiðargarði.
Eig: Linda Hrönn Arnþórsdóttir

Hestar:
1. sæti Vökull frá Bergsstöðum F: Máttur frá Torfunesi M: Þoka frá Grímshúsum
Eig: Benedikt Arnbjörnsson
2. sæti Hjörvar frá Svertingsstöðum F: Markús frá Langholtsparti M: Ísing frá Neðri-Vindheimum.
Eig: Pétur Haraldsson
3. sæti Einir frá Ytri-Bægisá F: Orri frá Þúfu M: Eik frá Dalsmynni
Eig: Gerd Jurgen Rahn.

 

Fræðslustarf og fundir 

1.-3. apríl sl. stóðu samtökin fyrir námskeiði í undirbúningi og þjálfun kynbótahrossa. Leiðbeinandi var hinn knái kynbótaknapi Daníel Jónsson. Námskeiðið var vel sótt. þátttakendur komu með eigin hross og fengu leiðbeiningar um hvernig best væri að haga þjálfun fram að kynbótasýningu. Einnig var farið yfir uppstillingu hrossa í byggingardómi ofl. 13 manns tóku þátt í þessu námskeiði.

Þá stóð Búgarður fyrir námskeiði í notkun á World Feng 24. maí sl. þáttaka var ágæt.

Samtökin stóðu að venju fyrir svokölluðum Haustfundi og var hann að þessu sinni haldinn í Funaborg á Melgerðismelum 26. október sl. Á fundinn mættu

Gunnar Arnarsson hrossabóndi og hrossaútflytjandi og fjallaði um sölu og markaðsmál í hrossaræktinni, Rúnar Þór Guðbrandsson svæðisstjóri hjá VÍS-AGRIA kynnti tryggingar á hrossum og Guðlaugur Antonsson landsráðunautur í hrossarækt fór yfir sviðið í hrossaræktinni. Mjög góð mæting var á fundinn og fullt út úr dyrum í Funaborg. Á fundinum var einnig skrifað undir kaup á stóðhestinum Gígjari og veitt ræktunarverðlaun, sem nánar er fjallað um í næsta kafla.

  

Verðlaunaveitingar

 Þrjú bú voru tilnend til Ræktunarverðlauna HEÞ 2005. Það voru Garðsá, Bringa, og Efri-Rauðilækur.  Ræktunarbú ársins var valið Efri-Rauðilækur en þar stunda hrossarækt feðgarnir Guðlaugur Arason og Baldvin Ari Guðlaugsson ásamt fjölskyldum sínum. Frá Efri-Rauðalæk hlutu 8 hross fullnaðardóm á liðnu ári og 5 fengu 8,0 eða meira í aðaleinkunn. Einnig voru fulltrúar frá Efri-Rauðalæk í keppni á HM í Svíþjóð í sumar. Hæst dæmda kynbótahross búsins á liðnu sumri var stóðhesturinn Krókur. Hann hlaut 8,53 fyrir hæfileika og 8,38 í aðaleinkunn. Búið var  einnig tilnefnt til titilsins “Ræktunarbú ársins 2005” yfir landið.

Ræktendur hæst dæmda stóðhests og hæst dæmdu hryssu, á félagssvæði HEÞ, hlutu einnig sérstaka viðurkenningu. Hæst dæmdi stóðhestrinn var Blær frá Torfunesi S-Þing., en hann hlaut einnig hæsta hæfileikadóm stóðhests í heiminum á árinu. Blær hlaut 8,80 fyrir hæfileika og 8,55 í aðaleinkunn. Ræktandi er Baldvin Kr. Baldvinsson í Torfunesi.  Hæst dæmda hryssan var Rák frá Halldórsstöðum í Eyjafirði. Hún hlaut í aðaleinkun 8,28. Tvær aðrar hryssur, Blíða frá Flögu og Framtíð frá Bringu hlutu reyndar sömu einkunn en þegar reiknað var á þriðja aukastaf reyndist Rák hlutskörpust. Ræktandi Rákar er Rósa Hreinsdóttir á Halldórsstöðum.

 

 

Fréttabréf og vefur

 Útgáfumál voru með svipuðu sniði og undanfarin ár. Tvö fréttabréf komu út á starfsárinu og á heimasíðunni hryssa.is má nálgast ýmsar upplýsingar um samtökin.